Með 32 tonn í yfirvigt

Hér ætlaði einhver að spara sér peninga og þá fyrirhöfn …
Hér ætlaði einhver að spara sér peninga og þá fyrirhöfn að þurfa að fara tvær ferðir til Noregs að sækja vélar. Reikningurinn verður hins vegar margfalt hærri, þegar upp er staðið, en þeim sparnaði hefði numið. Ljósmynd/Norska vegagerðin/Statens vegvesen

Vinnuveitandi ökumanns vörubifreiðar, sem eftirlitsmenn norsku vegagerðarinnar Statens vegvesen stöðvuðu í Halden í gærkvöldi og færðu til vigtunar við Svínasund, fjölförnustu landamærastöð sænsk-norsku landamæranna, fær bifreiðina ekki til baka nema hann reiði fram 338.000 norskar krónur í sekt, andvirði rúmlega 4,2 milljóna íslenskra króna.

Var sektin lögð á eftir að vigtunarmenn vegagerðarinnar komust að þeirri niðurstöðu að bifreiðin væri ofhlaðin um 32 tonn, en heildarþyngd hennar reyndist 82 tonn, sem er töluvert yfir þeirri 50 tonna heildarþyngd sem leyfist sem hámark fyrir þessa bifreið og tengivagn hennar.

Svo þungri bifreið er hætt við að vegkantar, jafnvel sumir vegir – svo ekki sé minnst á veigaminni brýr – gefi sig undan gríðarlegum þunganum auk þess sem aksturseiginleikar bifreiðarinnar verða allt aðrir en framleiðandi útbjó hana fyrir.

Gróft dæmi um ofhleðslu

Var ökumaður bifreiðarinnar, sem er á pólskum skráningarnúmerum, á leið út úr Noregi, hafði verið að sækja grófsigtunarvélar til Vestfold-fylkis þegar starfsmenn vegagerðarinnar, sem voru við eftirlit á E6-brautinni yfir til Svíþjóðar, urðu ferða hans varir og sáu þegar að stórfellt brot á norskum umferðarlögum var fullframið.

„Þetta er býsna gróft dæmi um ofhleðslu,“ segir Øyvind Grotterød, skrifstofustjóri norsku vegagerðarinnar, í samtali við ríkisútvarpið NRK. Þegar vigtun hafði átt sér stað á tollstöðinni hafi engum blöðum verið flettandi um að vörubifreiðin olli stórhættu í umferðinni.

„Ég lít þetta mjög alvarlegum augum. Þetta er mikið álag á vegakerfið, svo sem brýr auk þess sem hvorki hjólbarðar né hemlar ökutækisins eru gerðir til að þola slíkan þunga,“ bendir skrifstofustjórinn á.

Mun dýrara spaug en sektinni nemur

Erik Graarud, formaður Samtaka vörubifreiðaeigenda í Østfold, tekur í sama streng. „Þegar yfirvigtin er orðin umfram tíu tonn miðað við hvað bifreiðin er vottuð fyrir tekur steininn úr hvað umferðaröryggi áhrærir,“ segir Graarud og bætir því við að annaðhvort hafi menn verið alveg úti að aka, bókstaflega, eða brotið framið af ásetningi. Bendir hann á að tengivagninn hefði þurft að vera búinn fleiri öxlum en hvað sem því liði væri þunginn allt of mikill.

Sektin fyrir brotið, 4,2 milljónir er eitt, en gera má ráð fyrir mun meiri kostnaði þess sem ábyrgðina ber að lokum þar sem hann þarf að senda viðeigandi ökutæki eftir farminum – tæki sem getur flutt hann svo samræmist regluverkinu.

Segir Grotterød fullnustu sektargerðarinnar geta tekið tímann sinn. „Þetta er há upphæð sem ekki allir hafa tiltæka. Dagar eða vikur geta liðið þar til gert er upp,“ segir skrifstofustjórinn.

NRK

Tungt.no

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert