Þrír hermenn drepnir í björgunaraðgerð

Reykur í suðurhluta Beirút, höfuðborgar Líbanons, í gær eftir loftárás …
Reykur í suðurhluta Beirút, höfuðborgar Líbanons, í gær eftir loftárás Ísraela. AFP

Her Líbanons segir að þrír af hermönnum sínum hafi verið drepnir í árás Ísraela á meðan þeir voru að sinna björgunaraðgerð í suðurhluta landsins.

„Starfsmenn líbanska hersins voru skotmörk ísraelska óvinarins nálægt þorpinu Yater á svæðinu Bint Jbeil í suðri þegar þeir voru að sinna björgunaraðgerð til að flytja sært fólk á brott, sem leiddi til dauða þriggja píslarvotta, þar á meðal yfirmanns,“ sagði í yfirlýsingu hersins.

Að minnsta kosti 17 loftárásir

Ísraelar gerðu í nótt loftárásir á vígi Hisbollah-samtakanna í suðurhluta Beirút, að sögn líbanskra fjölmiðla.

Sex byggingar voru jafnaðar við jörðu í að minnsta kosti 17 loftárásum. Árásin er ein sú mesta í suðurhluta Líbanons síðan stríðið braust út í landinu 23. september.

Einn féll í Sýrlandi

Ríkisfjölmiðill Sýrlands greindi frá því að einn hermaður hefði fallið og sjö til viðbótar særst í loftárás Ísraela á íbúðabyggingu í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, og á svæði hersins í borginni Homs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert