75 milljarðar í „Járngeislann“

Járnskjöldurinn stöðvar sprengikúlu yfir borginni Tel Aviv í síðustu viku.
Járnskjöldurinn stöðvar sprengikúlu yfir borginni Tel Aviv í síðustu viku. AFP/Nathan Howard

Varnarmálaráðuneyti Ísraels ætlar að verja 530 milljónum Bandaríkjadala, eða um 75 milljörðum króna, í að flýta þróun laser-loftvarnarkerfis sem kallast „Járngeislinn“ (e. Iron Beam).

Kerfinu er ætlað að auðvelda Ísraelsher að stöðva árásardróna og aðrar sprengjur sem Hisbollah-samtökin í Líbanon hafa skotið í átt að Ísrael síðan stríðið á Gasasvæðinu hófst. Árásunum er ætlað að styðja baráttu samherja þeirra úr palestínsku Hamas-samtökunum.

„Járngeislinn“ myndi bætast við aðrar loftvarnir Ísraela, þar á meðal „Járnskjöldinn“ (e. Iron Dome).  Loftvörnunum hefur hingað til ekki tekist að stöðva allar árásir Hisbollah og fyrir vikið hafa bæði almennir borgarar og hermenn verið drepnir.

Ísraelska varnarmálaráðuneytið segist ætla að vinna með fyrirtækjunum Rafael og Elbit, sem sérhæfa sig hervörnum.

Vonast er til að nýja kerfið verði tilbúið til notkunar innan árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert