Myrti móður sína með kúbeini

Myrta og sonur hennar bjuggu saman í Bærum sem hér …
Myrta og sonur hennar bjuggu saman í Bærum sem hér sést í forgrunni en fjær sést í hluta Óslóar. Ljósmynd/Wikipedia.org

Rúmlega fertugur maður hlaut í morgun tólf og hálfs árs fangelsisdóm í Héraðsdómi Ringerike, Asker og Bærum fyrir að verða tæplegra sjötugri móður sinni að bana í apríl í hitteðfyrra með hrottafenginni atlögu að henni, eða eins og því er lýst í dóminum sem mbl.is hefur fengið aðgang að:

„Mánudaginn 4. apríl 2022 um klukkan 22:30 í [heimilisfang] í Bærum sló hann [nafn] móður sína ítrekað í höfuð og líkama með kúbeini með þeim afleiðingum að hún hlaut djúp brotsár hægra megin á höfði með útbreiddum sprungubrotum í höfuðkúpu. Höfuðáverkarnir drógu [nafn] til dauða.

Bar við minnisleysi

Ódæðið framdi sonurinn í íbúð sem hann deildi með móðurinni í Bærum, nágrannasveitarfélagi höfuðborgarinnar Ósló, og neitaði sök í málinu allan tímann. Bar hann því við að hann myndi ekkert eftir atburðum kvöldsins örlagaríka en lét þau orð falla, er Carl Graff Hartmann héraðssaksóknari spurði hann við aðalmeðferð málsins hvort einhver annar gæti hafa myrt móður hans, að hann áttaði sig á því að hann væri að öllum líkindum sá seki.

Bar ákærði við minnisleysi um atburði kvöldsins og hafði verjandi hans, Marianne Darre-Næss, meðal annars uppi þá málsvörn að skjólstæðingur hennar hefði mögulega verið ósakhæfur vegna geðrofsástands á verknaðarstundu. Þrískipaður héraðsdómur taldi ekki unnt að fallast á þá málsástæðu.

„Ummerki í íbúðinni og á hinni myrtu benda til þess án minnsta vafa að hún hafi verið myrt á hrottafenginn hátt. Sönnunargögn málsins útiloka að nokkur annar en ákærði hafi verið að verki,“ segir í dóminum.

Lögregla kom vegna áreksturs

Kveðst Darre-Næss verjandi, í samtali við Budstikka, staðarblað Asker og Bærum, ætla að fara yfir dóminn ásamt skjólstæðingi sínum áður en þau taki afstöðu til áfrýjunar.

„Það gleður mig að rétturinn hafi fallist á afstöðu ákæruvaldsins til sektar í málinu,“ segir Hartmann saksóknari, „ég tel dómsniðurstöðuna rétta.“

Lögregla kom á heimili dæmda aðfaranótt 5. apríl, þó ekki vegna gruns um ofbeldi eða manndráp heldur vegna þess að maðurinn hafði lent í árekstri á bifreið móður sinnar um kvöldið. Við skoðun heilbrigðisstarfsfólks uppgötvuðust áverkar á líkama hans, stungusár og skurðir, sem ekki var talið að hlotist hefðu af umferðarslysi. Ákvað lögregla þá að framkvæma leit í íbúðinni sem leiddi til þess að móðirin fannst látin á gólfi svefnherbergis síns.

Auk manndrápsins dæmdi héraðsdómur soninn til refsingar fyrir glæfralegan akstur undir áhrifum vímuefna og án gildra ökuréttinda. Þá var honum gert að greiða systur sinni 441.931 krónu í þjáningabætur fyrir móðurmissinn, jafnvirði tæplega 5,6 milljóna íslenskra króna.

Budstikka

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert