Verður ákærður fyrir hryðjuverk

Lögreglumenn standa vörð við Hart-stræti í Southport í norðvestanverðu Englandi …
Lögreglumenn standa vörð við Hart-stræti í Southport í norðvestanverðu Englandi eftir stunguárásina í júlí. AFP

Axel Rudakubana, 18 ára karlmaður sem sakaður er um að hafa orðið þremur ungum stúlkum að bana í stunguárás sem var framin á dansnámskeiði í bænum Southport í Englandi í júlí, hefur verið ákærður fyrir hryðjuverk.

Þá hefur hann einnig verið ákærður fyrir að hafa framleitt banvænt eitur en hann hefur þegar verið ákærður fyrir morð og morðtilraun vegna árásarinnar.

Að sögn bresku lögreglunnar koma ákærurnar í kjölfar húsleitar á heimili Rudakubana þar sem þjálfunarhandbók hryðjuverkasamtakanna Al-Kaída var á meðal þess sem fannst.

Óeirðir í Bretlandi vegna árásinnar

Rudakubana er sakaður um að hafa myrt Alice Dasilva Aguiar, níu ára, Bebe King, sex ára og Elsie Dot Stancombe, sjö ára, með eldhúshníf í árásinni.

Átta önnur börn særðust í árásinni, þar af voru fimm í lífshættu. Tveir fullorðnir særðust einnig alvarlega.

Í kjölfar árásarinnar í júlí brutust út óeirðir víða um Bretland þar sem þjóðernissinnar mótmæltu innflytjendum, og þá sérstaklega múslimum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka