Stuðningsmenn Kamölu Harris segja hana ekki þreyta sama próf og mótframbjóðandi hennar Donald Trump í aðdraganda kosninga.
Fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna Michelle Obama er ein þeirra sem tekur undir það sjónarmið og segir morgunljóst að frambjóðendurnir tveir séu mældir út frá gjörólíkum stöðlum.
Fimm dagar eru til kosninga og eru frambjóðendurnir svo gott sem hnífjafnir í skoðanakönnunum.
Obama hélt tölu á kosningafundi á laugardagskvöld í Michigan og sagði það sjálfsagt að krefja frambjóðendur um svör við erfiðum spurningum.
„En getur einhver sagt mér af hverju við gerum meiri kröfur til Kamölu en andstæðings hennar,“ sagði Obama og uppskar mikið lófatak í salnum.
„Við ætlumst til þess að hún sé klár, orðheppin, sé með skýra stefnu, sýni aldrei of mikið skap, en sanni aftur og aftur að hún eigi rétt á sér,“ sagði fyrrverandi forsetafrúin.
„En þegar að kemur að Trump þá búumst við ekki við neinu. Enginn skilningur á stefnumálum. Engin færni til að strengja saman heildstæð rök. Engin hreinskilni, ekkert velsæmi og engin siðferðiskennd.“
Margir stuðningsmenn Harris hafa frá upphafi haft orð á ójöfnum kröfum til frambjóðendanna tveggja og hafa sumir kennt mismuninn við kyn og húðlit frambjóðendanna. Aðrir telja einfaldlega mega kenna það við Trump sjálfan og hans óhefðbundna og óheflaða pólitíska stíl.
Van Jones, álitsgjafi á CNN, sló á svipaða strengi og Obama í síðustu viku og sagði Trump fá að vera löglausan á meðan Harris þyrfti að vera gallalaus til að fá að taka þátt í sömu baráttu.
„Þau eru ekki að taka sama prófið. Hún er með stefnur, það má vel vera að hún komist ekki alltaf vel að orði, stundum segir hún ekki sögur á réttum stöðum, en hún er að berjast fyrir raunverulegum hugmyndum sem munu hjálpa raunverulegu fólki og hann er að tala um typpin á fólki,“ sagði Jones.