Kannabisreykingar eða manndráp

Móðirin Linda segir sögu sonar síns sem fjórtán ára gamall …
Móðirin Linda segir sögu sonar síns sem fjórtán ára gamall byrjaði að sæta hótunum skólabræðra sinna. Eftir það seig hratt á ógæfuhliðina og hann var vistaður á Sis-heimili sem móðir hans segir framleiða glæpamenn. Skjáskot/Úr viðtali SVT

Unglingar á sænskum vistheimilum sökkva dýpra í afbrot og undirheima meðan á dvöl þeirra stendur þar sem þeir stofna til kynna við afbrotaunglinga sem komnir eru mun lengra á brautinni breiðu til glötunar. Um þetta vitna þrjár mæður sem segja sænska ríkisútvarpinu SVT frá upplifun sona sinna.

Um er að ræða svokölluð Sis-heimili sem draga nafn sitt af Statens institutionsstyrelse sem rekur 21 slíkt heimili með samtals 790 vistrými.

SVT birtir viðtal við eina mæðranna, Lindu, á heimasíðu sinni sem var vægast sagt brugðið eftir umbreytinguna á barni hennar eftir dvöl á Sis-heimilum víða, meðal annars í Tysslinge en þar tók steininn úr að sögn móður hans.

Sat með morðingjum

„Þegar hann er laus úr haldi er honum bannað að umgangast fólk sem reykir kannabisefni, en á Sis sat hann með morðingjum,“ segir Linda frá. „Eitthvað er bogið við það,“ bætir hún við.

Kveður hún samfélagið dæma marga foreldra í hennar sporum, nokkuð sem leiði til sektarkenndar og særinda. Er hún þó áfram um að segja af sinni upplifun þar sem margir séu í sömu stöðu.

„Ef við tölum um vandamálin getum við fundið leiðina út úr þeim í sameiningu,“ segir Linda vongóð, „þannig held ég að við stöndum sterkar að vígi,“ segir hún enn fremur og hvetur til breytinga á fyrirkomulaginu, unglingarnir forherðist á Sis-heimilunum þar sem líf í afbrotum sé staðalgert, normalíserað sem einnig hefur verið kallað.

Viðkvæmir og þurfa stuðning

Bendir móðirin á að unglingar, sem hafi misstigið sig, sumir í fyrsta skiptið, séu viðkvæmir. Að baki háttsemi sem teygi sig út fyrir regluverk samfélagsins leynist í mörgum tilfellum hróp á hjálp sem kalli á aðgerðir. Óskar Linda þess heitar en nokkurs annars að henni hefði veist sá stuðningur og sú upplýsingagjöf sem hún þarfnaðist til að hjálpa syni sínum áður en hann villtist á refilstigu.

„Flestir unglingar eru viðkvæmir og þurfa stuðning. En sá stuðningur er ekki Sis,“ segir hún.

„Þetta er sú mynd sem þær draga upp og ég tek henni af fullri alvöru,“ segir Mikael Skaldeman, forstöðumaður Sis-heimilisins í Tysslinge við SVT.

Hlýða má á viðtalið við Lindu í frétt SVT sem hlekkjuð er við hér að neðan.

SVT

SVT-II (rætt við Mikael Skaldeman forstöðumann)

SVT-III (stjórnendur Sis íhuga leiðir til úrbóta)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert