Milljarðamæringurinn Elon Musk á að mæta í dómsal í Fíladelfíu í Bandaríkjunum í dag.
Dómari fyrirskipaði að hann skyldi mæta í réttarhöld í tengslum við mál sem var höfðað til að koma í veg fyrir að hann gæti gefið eina milljón dollara til skráðra kjósenda í komandi forsetakosningum í sveifluríkjum.
Yfirsaksóknari Fíladelfíu-borgar, Larry Krasner, höfðaði málið á mánudaginn og sagði Musk hafa búið til „ólöglegt lottósvindl“. Í kjölfarið kvað dómari upp þann úrskurð í gær um að Musk skyldi mæta í dómsalinn.
Mikla athygli vakti þegar Musk tilkynnti fyrr í þessum mánuði að hann ætlaði að gefa einum skráðum kjósanda í sveifluríki eina milljón dollara á dag, eða um 143 milljónir króna, fram til kosninganna 5. nóvember. Efasemdir komu strax fram um lögmæti þess.
Fyrr í þessum mánuði var greint frá því að Musk hefði gefið pólitísku hagsmunafélagi sem hann stofnaði til að styðja við bandaríska forsetaframbjóðandann Donald Trump tæpar 75 milljónir bandaríkjadala, sem jafngildir um 10 milljörðum króna.
Musk hélt ræðu á kosningafundi Trumps í Fíladelfíu fyrr í mánuðinum. Auðjöfurinn, sem áður var stuðningsmaður Baracks Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hefur orðið sífellt íhaldssamari með árunum.
Hann hefur ítrekað skrifað til stuðnings Trump á samfélagsmiðlinum X, þar sem hann er með 202 milljónir fylgjenda. Einnig hefur hann ítrekað gagnrýnt þar Kamölu Harris varaforseta.