Sautján ára gamall nemandi í Jessheim-framhaldsskólanum í samnefndum bæ, um 40 kílómetra norðaustur af norsku höfuðborginni Ósló, situr í haldi lögreglu og er grunaður um að hafa lagt sextán ára gamlan samnemanda sinn hnífi í háls, hnakka og handlegg í skólanum í morgun.
Varð fórnarlambið fyrir stungunni í kennslustofu á skólatíma í morgun með fjölda sjónarvotta til staðar og fór lögregla á staðinn ásamt sjúkrabifreiðum þegar í stað er tilkynning barst um atburðinn.
Greindi lögreglan í austurumdæminu frá því í fréttatilkynningu í kjölfar handtökunnar að grunaði væri í haldi og yrði yfirheyrður í kvöld. Hefur yfirheyrslan nú farið fram og eftir því sem verjandi grunaða, Runa Elin Kosberg, greinir staðarblaðinu Romerikes Blad frá neitar skjólstæðingur hans sök.
Vopnið hefur enn sem komið er ekki fundist en nemandinn sem varð fyrir árásinni var fluttur með hraði undir læknishendur og reyndust meiðsli hans ekki lífshættuleg.
Ståle Lien Hansen, sveitarstjóri í Ullensaker sem Jessheim heyrir undir, segir sveitarfélagið nú vinna að því að koma nemendum og starfsfólki skólans til hjálpar eftir áfallið.
„Hér er um mjög alvarlegan atburð að ræða, [skólinn] er staður þar sem fólk kemur saman til náms, meðal annars lærir það að vera samvistum við annað fólk í samfélagi. Við kærum okkur því alls ekki um uppákomur af þessu tagi,“ segir Hansen.
Lögregla mun að öllum líkindum leiða grunaða fyrir dómara í fyrramálið og krefjast gæsluvarðhaldsúrskurðar yfir honum.