USS Harry S. Truman til Óslóar

USS Harry S. Truman kemur til Óslóar á morgun og …
USS Harry S. Truman kemur til Óslóar á morgun og munu tveir hafnsögumenn verða um 5.000 manna áhöfn til fulltingis við að koma skipinu inn Óslóarfjörðinn en það ristir djúpt svo ekki sé meira sagt, nánast að þeim mörkum sem norsk siglingayfirvöld leyfa í firðinum. Ljósmynd/Michael Shen/Bandaríski sjóherinn/US Navy

Norska landhelgisgæslan hefur uppi viðbúnað og verður til fulltingis þegar bandaríska flugmóðurskipið USS Harry S. Truman siglir inn Óslóarfjörðinn á morgun, föstudag, og heimsækir höfuðstaðinn þar sem áhöfnin, sem telur um 5.000 manns, mun ganga í land og skoða sig um.

Skipið er 333 metra langt og 78 metrar á breidd – vantar aðeins tvo metra upp á lengdina til að ná öðrum risa, USS Gerald R. Ford, sem sótti Norðmenn heim í maí í fyrra og vakti mikla athygli.

Tveir hafnsögumenn fara um borð í Truman, ekki síst til að lóðsa þetta stóra flugmóðurskip gegnum Drøbak-sundið, um 40 kílómetra suður af höfuðborginni, en sundið varð sögufrægt við innrás Þjóðverja í Noreg 9. apríl 1940 þegar þýska herskipinu Blücher var sökkt þar í sæ með tundurskeytum frá virkinu Oscarsborg og liggur flak þess þar enn á níutíu metra dýpi.

Flugmóðurskipið stóra, það áttunda af hönnunarlínunni Nimitz, er knúið tveimur Westinghouse A4W-kjarnaofnum og hefur þar með nær ótakmarkað drægi, getur fræðilega séð siglt um 2,6 milljónir sjómílna, sem jafngilda 4,8 milljónum kílómetra, án þess að koma til hafnar.

Knýja ofnarnir fjórar fimm blaða skrúfur sem hver um sig vegur 30 tonn og geta ýtt herfleyinu á undan sér um heimshöfin á um 30 hnúta hraða sem jafngildir 56 kílómetrum miðað við klukkustund. Bætist USS Harry S. Truman þar með á lista um 50 kjarnorkuknúinna sjófara sem heimsækja Noreg árlega og mbl.is fjallaði um í gær.

Getur skipið borið um 90 orrustuþotur og flytur þær til og frá flugtaksþilfari með fjórum lyftum sem hver um sig er 360 fermetrar að gólffleti. Fullbúinn til orrustu vegur USS Harry S. Truman 97.000 tonn og getur hýst 6.250 manns í áhöfn þótt meðalfjöldinn um borð sé yfirleitt á bilinu 4.500 til 5.200 manns.

Í stakk búið til að verja hendur sínar

USS Harry S. Truman, sem tilheyrir sveitinni Carrier Strike Group 8 undir stjórn aðmírálsins Sean R. Bailey, hefur undanfarna daga tekið þátt í NATO-æfingunni Neptune Strike í Norðursjónum.

„Heimsóknin færir okkur heim sanninn um að [Atlantshafsbandalagið] NATO er í stakk búið til að verja hendur sínar og að við stöndum saman um þær varnir,“ segir Rune Andersen aðstoðaraðmíráll, yfirmaður aðgerðastjórnstöðvar norska hersins, Forsvarets operative hovedkvarter, í samtali við vefsíðu hersins, Forsvarets forum.

Segir Andersen enn fremur að heimsókn USS Harry S. Truman sé táknræn fyrir þá áherslu sem Bandaríkjaher leggi á stöðugleika á norðurslóðum og í nærumhverfi þeirra.

„Þeirri öryggispólitísku stöðu sem nú er uppi lýkur ekki í bráð,“ segir aðstoðaraðmírállinn, „svo við þurfum að venjast því að hernaðarlegar aðgerðir verði meira áberandi og nánast stöðugar. Af og til eru þær mjög sýnilegar, svo sem þegar flugmóðurskip heimsækja Ósló.“

Bendir Andersen að lokum á að heimsókn skipsins sendi Rússum skýr skilaboð um samstöðu aðildarríkja NATO sem ávallt séu til reiðu komi til ógnunar við öryggi eins þeirra eða fleiri.

Forsvarets forum

NRK

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert