Skotárás á sænska rakarastofu

Skotárás var gerð á rakarastofu í Sätra Centrum-verslunarmiðstöðinni í Stokkhólmi …
Skotárás var gerð á rakarastofu í Sätra Centrum-verslunarmiðstöðinni í Stokkhólmi í dag. Nágranni kveður oft róstusamt við miðstöðina og kaupir gjarnan í matinn annars staðar. Ljósmynd/Facebook-síða Sätra Centrum

Tveir eldri menn voru fluttir á sjúkrahús með áverka eftir skotárás á rakarastofu í Sätra Centrum, verslunarmiðstöð í Suður-Stokkhólmi í Svíþjóð, síðdegis í dag og rannsakar lögregla borgarinnar málið sem tilraun til manndráps. Fernt var inni á stofunni þegar atburðurinn átti sér stað, viðskiptavinir og starfsfólk.

Fjöldi gesta verslunarmiðstöðvarinnar heyrði skothvelli þar inni laust fyrir klukkan 16 að sænskum tíma og bárust lögreglu þá þegar tilkynningar um málið. Kom hún á staðinn með mikinn viðbúnað auk þess sem sjúkrabifreiðar komu aðvífandi og sjúkraþyrla.

„Tvær manneskjur urðu fyrir skotum. Fyrstu upplýsingar herma að þær séu með meðvitund og geti tjáð sig,“ segir Nadya Norton, upplýsingafulltrúi hjá lögreglunni í Stokkhólmi, við sænska ríkisútvarpið SVT og bætti því við að lögregla ræddi nú við vitni sem voru nærstödd þegar atlagan var gerð.

Tíu vopnaðir lögregluþjónar

Eftir að lögregla hafði tryggt vettvanginn hóf hún leit að árásarmanninum eða -mönnunum og sáust drónar á vegum lögreglu sveima um nágrennið auk þess sem leitað var úr þyrlu. Teymi SVT á staðnum sá þrjá menn færða inn í lögreglubifreið en Norton upplýsingafulltrúi kvaðst ekki hafa heyrt um neinar handtökur, þar væru hugsanlega bara einhverjir sem lögreglan vildi ræða við.

Nokkuð löngu eftir árásina voru tíu vopnaðir lögregluþjónar enn á vettvangi að sögn teymis SVT auk þess sem tæknideildarfólk vann þar frumrannsókn sína

Rúmlega tvítug kona, búsett í nágrenninu, segir SVT-fólki að oft sé róstusamt við Sätra Centrum og hún fari gjarnan annað til að kaupa í matinn þar sem henni hrjósi hugur við að vera á ferð við miðstöðina. Annar viðmælandi kveðst hafa ætlað í klippingu á rakarastofuna í dag en flýtt henni og farið þess í stað í gær.

„Það virðist óraunverulegt þegar maður hugsar til þess,“ segir viðmælandinn og er felmt við.

SVT

Aftonbladet

Expressen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert