Ekki víst að ummæli Bidens hafi teljandi áhrif

Ummæli Bidens vöktu úlfúð.
Ummæli Bidens vöktu úlfúð. AFP/Ting Shen

Ekki er víst að ummæli Joe Bidens Bandaríkjaforseta um að stuðningsmenn Donalds Trumps, forsetaframbjóðanda repúblikana, séu rusl muni hafa teljandi áhrif á komandi forsetakosningar vestanhafs.

Þetta segir bandaríski kosningaráðgjafinn Mark Campbell í samtali við mbl.is.

„Fólk í báðum stjórnmálaflokkum gerir alltaf meira úr hlutunum en þeir eru í raun og veru,“ segir Campbell.

„Eina ruslið sem ég sé fljóta þarna úti eru stuðnings­menn Trump,“ sagði Biden á dögunum.

Þetta sagði Biden í sam­tali við VotoLatino sam­tök­in og var þar að svara fyr­ir orð grín­ist­ans Tony Hinchcliffe þar sem hann sagði á kosn­inga­fundi Trumps í New York að Púertó Ríkó væri fljót­andi ruslaeyja á hafi úti.

Ruslabíll mætti að ná í Trump á flugvellinum degi eftir …
Ruslabíll mætti að ná í Trump á flugvellinum degi eftir ummæli Bidens. AFP/Chip Somodevilla

„Fólk telur Biden vera hrörnandi eldri mann“

Spurður hvort að ummæli Bidens hafi áhrif á komandi kosningar segir Campbell:

„Hin sorglega staða mála hjá okkur er sú að fólk telur Biden vera hrörnandi eldri mann sem segir undarlega hluti og gerir reglulega skyssur. Þannig hann er svona eiginlega eins og klikkaði frændi þinn. Enginn tekur virkilega eftir gamla klikkaða frænda sínum,“ segir Campbell.

Campbell var kosn­inga­stjóri Glen Youngkins, rík­is­stjóra Virg­in­íu, ásamt því að hafa verið hátt­sett­ur [e. Political director] í for­setafram­boðum Ted Cruz og Rudy Giuliani. Hann hef­ur einnig starfað fyr­ir Bush-feðgana og þá þjálf­ar hann nú aðra íhalds­sama kosn­inga­stjóra vest­an­hafs.

Mark Campbell.
Mark Campbell. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka