Ekki er víst að ummæli Joe Bidens Bandaríkjaforseta um að stuðningsmenn Donalds Trumps, forsetaframbjóðanda repúblikana, séu rusl muni hafa teljandi áhrif á komandi forsetakosningar vestanhafs.
Þetta segir bandaríski kosningaráðgjafinn Mark Campbell í samtali við mbl.is.
„Fólk í báðum stjórnmálaflokkum gerir alltaf meira úr hlutunum en þeir eru í raun og veru,“ segir Campbell.
„Eina ruslið sem ég sé fljóta þarna úti eru stuðningsmenn Trump,“ sagði Biden á dögunum.
Þetta sagði Biden í samtali við VotoLatino samtökin og var þar að svara fyrir orð grínistans Tony Hinchcliffe þar sem hann sagði á kosningafundi Trumps í New York að Púertó Ríkó væri fljótandi ruslaeyja á hafi úti.
Spurður hvort að ummæli Bidens hafi áhrif á komandi kosningar segir Campbell:
„Hin sorglega staða mála hjá okkur er sú að fólk telur Biden vera hrörnandi eldri mann sem segir undarlega hluti og gerir reglulega skyssur. Þannig hann er svona eiginlega eins og klikkaði frændi þinn. Enginn tekur virkilega eftir gamla klikkaða frænda sínum,“ segir Campbell.
Campbell var kosningastjóri Glen Youngkins, ríkisstjóra Virginíu, ásamt því að hafa verið háttsettur [e. Political director] í forsetaframboðum Ted Cruz og Rudy Giuliani. Hann hefur einnig starfað fyrir Bush-feðgana og þá þjálfar hann nú aðra íhaldssama kosningastjóra vestanhafs.