Neita að vera að baki fölsuðu kosningamyndskeiði

Frá kjörstað í New York.
Frá kjörstað í New York. AFP

Yfirvöld í Moskvu neita að vera að baki fölsuðu myndskeiði sem tengist kosningunum í Bandaríkjunum.

Í gær birtu þrjár bandarískar leyniþjónustustofnanir sameiginlega yfirlýsingu þar sem sagði að rússneskir leikarar væru að baki myndskeiði af manni sem segist vera frá Haítí og að hann hafi kosið „nokkrum sinnum“ í Georgíuríki.

Myndskeiðið sem um ræðir er 20 sekúndur og sýnir tvo menn í bifreið sem segjast vera Haítíbúar.

Annar mannanna segist hafa fengið ríkisborgararétt á innan við sex mánuðum frá því að hann kom til Bandaríkjanna og að hann hafi kosið Kamölu Harris í tveimur sýslum í Georgíu. Þá hvetja mennirnir Haítíbúa til að koma til Bandaríkjanna.

Þegar hefur verið horft á það hundruðum þúsunda sinnum á samfélagsmiðlinum X.

„Þessi rússneska starfsemi er hluti af víðtæku átaki Moskvu til þess að vekja tilhæfulausar spurningar um heiðarleika bandarísku kosninganna og kynda undir sundrungu meðal Bandaríkjamanna,“ sagði í yfirlýsingunni.

Ásakanirnar tilhæfulausar 

Í yfirlýsingu frá rússneska sendiráðinu í Bandaríkjunum á Telegram sagði að ásakanir Bandaríkjamanna ættu ekki við rök að styðjast.

Þá sagði að Rússar hefðu ekki fengið neinar sannanir fyrir ásökunum Bandaríkjamanna í samskiptum þeirra við bandaríska embættismenn.

„Eins og Vladimír Pútín hefur ítrekað sagt: við munum virða vilja bandarísku þjóðarinnar,“ sagði í yfirlýsingu rússneska utanríkisráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka