Forsætisráðherra Spánar hefur fyrirskipað 5.000 hermönnum og 5.000 manna liðsstyrk lögreglu og borgaralegrar gæslu til aðstoðar í Valencia-héraði, til viðbótar við þá sem þegar aðstoða á svæðinu. BBC greinir frá.
Pedro Sánchez segir að staðfest sé að 211 hafi látið lífið í flóðunum, en búist sé við því að talan myndi hækka enn frekar.
Um 1.700 hermenn eru nú þegar við leit og björgun í Valencia-héraði, en vonir um að finna fleiri eftirlifandi fara dvínandi.
Sánchez segir flutninginn á spænsku herliði vera þann mesta á friðartímum fyrr og síðar.
Úrhellisrigningin hófst á mánudag og olli flóðum sem eyðilögðu brýr og þöktu bæi með aur. Heilu bæirnir urðu án vatns, matar eða rafmagns.
Sánchez sagðist vera meðvitaður um að viðbrögð yfirvalda við hamförunum hefðu ekki verið fullnægjandi og viðurkenndi „alvarleg vandamál og vankanta“.
Veðurviðvaranir eru í gildi á norðaustur- og suðurhluta Spánar fram á sunnudagskvöld, en viðvaranir voru gefnar út fyrir Baleareyjar í dag.