Tugþúsundir sjálfboðaliða mættir á flóðasvæðið

Tugþúsundir sjálfboðaliða eru komnir til Valenciu–borgar á Spáni tilbúnir að leggja af stað til þeirra svæða sem urðu verst úti í hamfaraflóðunum sem riðu yfir Valencia-hérað í vikunni.

Spænska fréttastofan Europa Pass greinir frá þessu.

207 hafa fundist látnir í kjölfar flóðanna að sögn Fernando Grande-Marlaska, innanríkisráðherra Spánar, en víst er tala látinna á eftir að hækka því fjölmargra er enn saknað.

Hann segir í viðtali við spænsku útvarpsstöðina Cadena SER að ekki sé vitað nákvæmlega hversu margra er saknað en neyðarþjónustan hefur fengið símtöl frá ættingjum 1.900 manna sem ekki finnast.

Auk sjálfboðaliðanna hafa 1.700 hermenn verið sendir á flóðasvæðið til leitar- og björgunarstarfa í héraðinu, þó að vonir um að finna fleiri á lífi fari minnkandi.

Samkvæmt BBC eru þúsundir manna á leið á dreifbýlisstaði í héraðinu til aðstoðar við hreinsunarstarf, en yfirvöld í Valencia tilkynntu í gær að umferð á svæðinu yrði takmörkuð um helgina til að tryggja aðgang björgunarfólks.

Veðurviðvaranir sem enn eru í gildi á norðaustur- og suðurhluta Spánar standa fram á sunnudag.

Trúði því að hún væri að fara að deyja

Amparo Andres, sem hefur rekið verslun í Valencia í 40 ár, sagði við BBC að á einum tímapunkti hafi vatnið í byggingu verslunarinnar náð upp að hálsi hennar. Hún trúði því að hún væri að fara að deyja.

„Ég er allavega á lífi, en ég hef misst allt. Fyrirtækið mitt og heimilið mitt. Og ríkisstjórnin er ekki að gera neitt. Aðeins unga fólkið í kringum okkur veitir okkur hjálp," sagði hún.

Þúsundir sjálfboðaliða eru komnir til Valenciu-borgar til aðstoðar við leitar- …
Þúsundir sjálfboðaliða eru komnir til Valenciu-borgar til aðstoðar við leitar- og björgunarstörf. AFP
Frá bænum Alfafar í Valenciu-héraði þar sem gífurleg eyðilegging hefur …
Frá bænum Alfafar í Valenciu-héraði þar sem gífurleg eyðilegging hefur átt sér stað eftir flóðin. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka