Nágranninn fannst látinn við nærliggjandi skóla

Erla María Huttunen, íbúi í Catarroja, segir lík enn að …
Erla María Huttunen, íbúi í Catarroja, segir lík enn að finnast eftir því sem hreinsunarstarfi vindur fram. Samsett mynd

„Við vorum því miður að fá þær fréttir að nágranni okkar hefði fundist látinn. Hann var við skóla sem er á móti húsinu okkar. Mestar líkur eru á því að hann hafi verið á götunni en ekki í bílakjallara eins og við héldum fyrst. Svo hefur straumurinn bara tekið hann,“ segir Erla María Huttunen.

Hún er íbúi í Catarroja, sem stendur rétt sunnan við Valencia, en mikil flóð ollu stórtjóni og mannskaða á þriðjudagskvöld. Minnst 217 eru látnir og enn er tuga saknað.

Umræddur skóli er með steypta veggi allt í kring og hafði ein hliðin gefið sig þegar flóð kom skyndilega inn götuna sem Erla býr við.

Að sögn hennar hefur áður sést til réttarmeinafræðinga við götuna. Gefur það til kynna að fleiri lík hafi fundist í götunni.

Hún segir búið að fjarlægja alla bíla úr götunni en nú vinni stjórnvöld sig skipulega eftir götum bæjarins. Í dag er unnið að hreinsun á götunni hennar.

Unnið er að hreinsun í götunni.
Unnið er að hreinsun í götunni. Ljósmynd/Aðsend

Enn að komast niður á jörðina

„Það er verið að hreinsa allt draslið og bílana frá. Þegar allt þetta stóra er tekið í burtu finnast fleiri lík því svo virðist vera að margir hafi farið undir stóra hluti,“ segir Erla.  

Rafmagnsleysi hefur gert vart við sig auk þess sem fólk hefur verið varað við því að elda upp úr kranavatni vegna mengunar. 

„Fólk er ýmist mjög sorgmætt, aðrir eru reiðir og enn aðrir eru ekki komnir niður á jörðina eða búnir að melta það sem gerðist. Ég býst við því að ég sé á þeim stað,“ segir Erla María. 

Flökkusögur fara um samfélagsmiðla

Hún segir það ekki hjálpa til við að sefa vænisýki fólks að reglulega hafi gengið flökkusögur um samfélagsmiðla sem hafi gert fólk órólegt. Ekki síst í ljósi þess að flóðið á þriðjudag kom svo til án fyrirvara.

„Það er erfitt að vita hvað er satt og hvað ekki. Í gær kom til að mynda rigning. Í framhaldinu fóru að ganga hljóðskilaboð í Whatsapp-grúppum um að það væri að koma annað flóð sem væri tveggja metra hátt. Þannig er búið til „panik“ hjá fólki. Það kom nokkuð mikil rigning en vegna ástandsins var ekki sála sem hætti sér út á götu. Allir urðu skíthræddir og fóru heim til sín,“ segir Erla. 

Innanstokksmunir hreinsaðir úr dýraspítala.
Innanstokksmunir hreinsaðir úr dýraspítala. Ljósmynd/Aðsend

Rauðar viðvaranir í Katalóníu

Miklar rigningar hafa verið í Katalóníu undanfarna daga. Í Barcelona hefur verið gefin út rauð viðvörun og skilaboð send á fólk og það varað við því að halda sig nærri uppþornuðum árfarvegum. Óttast er að svipað ástand skapist og í Valencia í síðustu viku. Í því tilfelli flæddi vatn úr fjalllendi niður á sléttlendi á örskotsstundu.

Um 50 áætlanaflugferðum til Barcelona var aflýst í dag. Þá hefur stór hluti lestarkerfis borgarinnar legið niðri auk þess sem flætt hefur yfir hraðbrautir norðan við borgina. Í borginni Tarragona sem liggur mitt á milli Valencia og Barcelona var skólahaldi aflýst og fólk varað við því að vera á jarðhæð eða í kjöllurum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert