Umhverfissvið eigi vísan stað í helvíti

Peanut hafði öðlast frama sem Instagram-stjarna þegar starfsmenn umhverfissviðs New …
Peanut hafði öðlast frama sem Instagram-stjarna þegar starfsmenn umhverfissviðs New York-borgar ruddust inn á heimili hans og aflífuðu hann. Drápið varð örfáum dögum síðar kosningamál hjá Trump og Vance. Ljósmynd/Instagram

Varaforsetaefni bandaríska forsetaframbjóðandans og fyrrverandi forsetans Donalds Trumps, JD Vance, kveður dráp Instagram-stjörnunnar og gæluíkornans Peanuts í New York-borg vekja áleitnar spurningar um forgangsröðun sitjandi ríkisstjórnar.

Starfsmenn umhverfissviðs borgarinnar fóru á miðvikudaginn inn á heimili vegna „fjölda ábendinga almennings um að þar byggju villt dýr, hugsanlega haldin hundaæði, í trássi við allar reglugerðir um öryggismál dýrahalds“, eins og aðgerðin var útskýrð af hálfu sviðsins.

Í kjölfar þess er Peanut beit starfsmann umhverfissviðs var dýrið aflífað og sömu leið fór þvottabjörninn Fred á sama heimili.

Ríkisstjórn andvíg gæludýraeign

Hefur víg íkornans vakið gríðarlega athygli í kjölfar þess er hann öðlaðist heimsfrægð á samfélagsmiðlinum Instagram og nýttu forsetaframbjóðendur Repúblikanaflokksins, þeir Trump og Vance, málið sjónarmiðum sínum til framdráttar.

„Sama ríkisstjórn og kærir sig kollótta um hundruð þúsunda ólöglegra glæpainnflytjenda sem koma til landsins okkar vill ekki að við eigum gæludýr,“ sagði Vance, sem er öldungadeildarþingmaður fyrir Ohio-ríki, á kosningafundi í Norður-Karólínu í gær. „Það er brjálæði,“ sagði hann enn fremur, eftir að hafa lýst því yfir að Trump hefði brugðist ókvæða við drápi íkornans.

Elon Musk, Tesla- og geimferðafrumkvöðull, snýst á sveif með Trump og Vance og snýr Peanut-málinu upp í vísun í þekkta tilvitnun úr Stjörnustríðsmynd frá 1977.

Mark Longo, eigandi Peanuts heitins, sakar starfsmenn umhverfissviðs um að hafa farið offari er þeir ruddust inn á heimili hans í síðustu viku og hefur nú hafið réttlætisherferð á lýðnetinu til varnar íkorna sínum undir myllumerkinu Justiceforpeanut eða Réttlætifyrirpeanut. Hafa 140.000 dalir þegar safnast á söfnunarsíðunni GoFundMe, jafnvirði 19,1 milljónar íslenskra króna.

Hæli fyrir innflytjendur – gæludýr drepin

Nick Langworthy, þingmaður New York-ríkis, hefur tekið mál Peanuts upp á sína arma á samfélagsmiðlum og þar með svarist í hóp þeirra sem telja dýrið hafa drepist píslarvættisdauða og með því borið harðráðri ríkisstjórn ófagurt vitni.

Heldur Langworthy því fram að Kathy Hochul, ríkisstjóri New York, hafi torkennilega forgangsröð á málum ríkis síns. „Í New York rekum við hæli fyrir ólöglega innflytjendur á meðan saklaus gæludýr er drepin,“ skrifar þingmaðurinn á miðla sína.

Sjálfur hefur Longo, sem horfði upp á starfsmenn umhverfissviðs New York-borgar koma gæludýrum hans fyrir kattarnef, lýst því yfir á Instagram að umhverfissvið borgarinnar eigi sér „vísan stað í helvíti“.

CNN

Fox News

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert