Gott fyrir Trump ef fulltrúadeildin myndi kjósa

Samsett mynd af Trump og Harris.
Samsett mynd af Trump og Harris. AFP/Kamil Krzachzynski og Andrew Caballeru-Reynolds

Þeirri spurningu er varpað fram á Vísindavefnum hvað gerist ef forsetaframbjóðendur í Bandaríkjunum fá báðir jafnmarga kjörmenn.

„Ef enginn fær meirihluta kjörmanna í forsetakosningum í Bandaríkjunum, þá kýs fulltrúadeildin forseta og öldungadeildin varaforseta. Ef þessi staða kæmi upp í kosningunum haustið 2024, þá væru allar líkur á því að repúblikanar fengju að velja sína frambjóðendur í bæði embættin,“ segir í stutta svarinu frá Silju Báru Ómarsdóttur, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Fram kemur að atkvæði kjósenda ráði ekki úrslitum um það hver verður forseti Bandaríkjanna, heldur atkvæði kjörmannanna svokölluðu. Þeir mynda kjörmannaráðið eða Electoral College, sem er fastmótað í stjórnarskrá Bandaríkjanna.

„Eftir því sem íbúasamsetning í Bandaríkjunum breytist þá hafa atkvæði í kjörmannakerfinu breyst. Þau eru nú 538 og það þarf einfaldan meirihluta, það er 270 atkvæði til að hreppa embættið. En þetta þýðir að atkvæði geta staðið á jöfnu, þannig að hvor af frambjóðendum stóru flokkanna fái 269 atkvæði,“ segir þar einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert