Sprengjuhótanirnar virðast koma frá Rússlandi

Bandaríkjamenn velja sér nýjan forseta.
Bandaríkjamenn velja sér nýjan forseta. AFP/Robyn Beck

Alríkislögreglan í Bandaríkjunum segir fjölda sprengjuhótana sem bárust kjörstöðum í nokkrum ríkjum í dag ekki trúverðugar. Virðist stór hluti þeirra hafa komið frá Rússlandi.

Bandaríkjamenn velja sér nýjan forseta í dag. Mikill viðbúnaður er og löggæsla hertari en í fyrri kosningum vegna mögulegra uppþota og ótta við ofbeldi í garð starfsfólks á kjörstöðum.

Sprengjuhótanir trufluðu lítillega atkvæðagreiðslu í Georgíu en hótanirnar eru ekki taldar raunverulegar.

Engin trúverðug hótun

„Alríkislögreglan er meðvituð um sprengjuhótanir sem bárust kjörstöðum í nokkrum ríkjum í dag, margar sem virðast koma frá rússneskum netföngum,“ sagði Savannah Syms, talskona lögreglunnar, í yfirlýsingu.

„Engin hótun hefur verið metin trúverðug hingað til,“ bætti hún við, og hvatti almenning til að halda ró sinni.

Loka þurfti minnst sjö kjörstöðum í Fulton-sýslu í Georgíu tímabundið vegna sprengjuhótana, engum þó lengur en í hálftíma, að sögn borgarstjóra Suður-Fulton.

Falsfréttaflutningur um kosningasvindl

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem bandarísk yfirvöld saka Rússa um að hafa áhrif á kosningar.

Klukkutímum áður en kjörstaðir opnuðu höfðu yfirvöld varað við rússneskum falsfréttaflutningi um kosningasvindl í sveifluríkjum.

Á föstudag vöruðu yfirvöld einnig við djúpfölsuðu myndskeiði sem sýndi innflytjanda frá Haítí segja að hann hefði kosið mörgum sinnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert