Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefur vísað Yoav Gallant frá starfi varnarmálaráðherra. Netanjahú segir brottvísunina vera sökum trúnaðarbrests þeirra á milli í tengslum við átökin á Gasa.
Þess í stað hefur hann skipað Israel Katz, utanríkisráðherra Ísraels, í stöðu varnarmálaráðherra.
Gallant sagði, eftir brottvísunina, að varnarmál Ísraels yrðu honum ávallt hugleikin.
Netanjahú kveðst hafa reynt að brúa bilið á milli sín og Gallants en án árangurs.
Hann sagði hættu stafa af því að almenningur, og einkum óvinir þeirra, gerðu sér grein fyrir ósætti þeirra á milli.
Netanjahú hefur skipað Gideon Saar utanríkisráðherra í stað Katz.