Spænska lögreglan segist hafa lagt hald á 13 tonn af kókaíni, sem er það mesta frá upphafi í landinu.
Einn hefur verið handtekinn vegna málsins.
Fulltrúar lögreglunnar og tollsins fundu kókaínið eftir að það hafði komið með flutningaskipi til hafnarinnar Algeciras á suðurhluta Spánar. Skipið kom frá stærstu borg Ekvadors, Guayaquil.
Kókaínið var falið innan kassa með banönum og litu kassarnir með kókaíninu alveg eins út.
Kona sem talin er tengjast fyrirtækinu sem flytur umrædda banana til landsins var handtekin í spænsku borginni Toledo. Tveir aðrir sem eru grunaðir í málinu eru eftirlýstir, að sögn lögreglunnar.