Sænski forsætisráðherrann Ulf Kristersson varaði í morgun við því að kjör Donalds Trumps vestanhafs gæti stefnt skuldbindingum bandarískra stjórnvalda gagnvart Úkraínu í voða.
Færði ráðherra forsetaframbjóðandanum hamingjuóskir með kosningasigurinn á samfélagsmiðlinum X í morgun þegar ljóst virtist hvert stefndi. Kvaðst hann hlakka til „samstarfs og að halda áfram frábærum tengslum Bandaríkjanna og Svíþjóðar sem vinir og bandamenn“.
Ekki liðu þó nema klukkustundir þar til Kristersson lét þau orð falla á blaðamannafundi að endurkjör Trumps í embætti fæli í sér vissar hættur, svo sem hvað afkomu sjálfrar Svíþjóðar snerti þar sem Trump gæti dregið úr stuðningi Bandaríkjanna við Úkraínu.
„Ég ætla ekki að gera ráð fyrir því,“ sagði ráðherra, „á hinn bóginn er það okkar forsenda að Bandaríkin hafa fram til þessa verið stærsti einstaki bandamaður Úkraínu þegar kemur að veittri hergagnaaðstoð. Út frá því munum við ekki geta gengið áfram,“ sagði Kristersson á fundinum.
Trump hefur lýst yfir efasemdum sínum um að halda hernaðarlegum stuðningi við Kænugarð áfram en þess í stað lofað að semja við Vladimír Pútín Rússlandsforseta um að binda endi á Úkraínustríðið með hraði.