Elon Musk með á símafundi Trumps og Selenskís

Viðvera Musks á fundinum varpar upp ýmsum spurningum um áhrif …
Viðvera Musks á fundinum varpar upp ýmsum spurningum um áhrif hans og völd í Hvíta húsinu undir stjórn Trumps. AFP

Auðkýfingurinn Elon Musk tók þátt í símafundi tilvonandi forseta Bandaríkjanna, Donald Trumps, og Úkraínuforsetans Volodimírs Selenskís, daginn eftir að Trump sigraði kosningarnar.

Frá því greinir fréttastofa CNN.

Samkvæmt heimildarmanni var Musk með Trump við golf­set­ur hans í Mar-a-Lago í Flórída en hann hef­ur styrkt Trump um að minnsta kosti 119 millj­ón­ir banda­ríkja­dala í kosn­inga­bar­átt­unni og hefur lagt til að hann muni leiða átak til að draga úr útgjöldum innan bandarísku ríkisstjórnarinnar. 

Selenskí þakkaði Musk

Á Trump að hafa sett Selenskí á hátalara fyrir framan Musk og þakkaði Úkraínuforsetinn Musk fyrir aðstoð hans við að veita samskiptaleiðir í gegnum Starlink-gervihnattaþyrpinguna sem er í eigu fyrirtækis Musk, SpaceX.

Musk, einn ríkustu manna í heimi, var þó farinn að kvarta yfir kostnaðinum undir lokin og fóru fregnir að berast af takmörkuðu og slitróttu aðgengi að Starlink á svæðum eins og hernumda Krímskaganum.

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti að lokum að það myndi greiða fyrir aðgengi Úkraínumanna að Starlink.

Hver verða völd Musks í Hvíta húsinu?

Að sögn heimildarmanns voru engar stjórnmálastefnur ræddar í símtali Trumps, Selenskís og Musks sem var um sjö mínútur.

Viðvera Musks á fundinum varpar engu að síður upp ýmsum spurningum um áhrif hans og völd í Hvíta húsinu undir stjórn Trumps.

Með sigri Trumps fylgir viss óvissa um áframhaldandi aðstoð Bandaríkjanna við Úkraínumenn sem berjast gegn innrás Rússa. Hefur Trump ítrekað sett út á aðstoð Bandaríkjanna og viðrað hugmyndir um að enda stuðninginn við Úkraínu er hann tekur við embætti forseta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert