Verkfræðingar fundu flösku með 132 ára gömlum skilaboðum djúpt í veggjum vita við hefðbundna eftirlitsskoðun.
Flaskan fannst inni í Corsewall-vitanum í suðurhluta Skotlands. BBC greinir frá.
Bréfið er dagsett 4. september árið 1892 og er undirritað af þremur vitavörðum og þremur verkfræðingum sem höfðu sett upp nýjan ljósgjafa í vitanum.
Skoski verkfræðingurinn Ross Russell sá glitta í flöskuna er hann leit bak við panilklæðningu í skáp. Var flaskan þó nokkuð utan seilingar og enduðu verkfræðingarnir á að útbúa veiðifæri úr kústskafti og reipi til að ná flöskunni út úr veggnum.
Ákváðu þeir þó að bíða með að skoða innihald flöskunnar þar til núverandi vitavörður Corsewall-vitans, Barry Miller, hafði verið kallaður á staðinn
Talið er að um sé að ræða gamla olíuflösku en korkurinn í flöskunni hafði þanist allverulega út á síðustu 132 árum og þurfti því að skera toppinn af korknum og ná restinni af korkinum út með borvél.
„Þetta var svo spennandi, það var eins og að hitta samstarfsmenn okkar úr fortíðinni. Það var í raun eins og þeir væru þarna,“ sagði Miller sem kvaðst hafa skolfið eins og hrísla er hann opnaði bréfið.
Bréfið í flöskunni hljóðar á eftirfarandi vegu:
„Þessi ljósgjafi var reistur af James Wells verkfræðingi, John Westwood myllusmið, James Brodie verkfræðingi, David Scott vinnumanni frá James Milne og sonum verkfræðistofu, Milton House Works í Edinborg, frá maí og fram í september og var vitinn endurljómaður fimmtudagskvöldið 15. september 1892.
Eftirfarandi voru vitaverðir á þeim tíma: John Wilson aðalvörður, John B. Henderson fyrsti aðstoðarmaður og John Lockhart annar aðstoðarmaður.
Linsuna og vélina útveguðu James Dove og félagar, verkfræðistofa í Greenside Edinborg, og var reist af William Burness, John Harrowe, James Dods. Verkfræðingar hjá fyrrgreindri verkfræðistofu.“