Konur sniðganga karlmenn út af Trump

Margar konur í Bandaríkjunum skoða það nú að sniðganga karlmenn …
Margar konur í Bandaríkjunum skoða það nú að sniðganga karlmenn í ljósi þess að þeir skeyti augljóslega litlu um réttindi þeirra. AFP

Örfáum dögum eftir að Donald Trump vann yfirgnæfandi sigur gegn Kamölu Harris í forsetakosningunum í Bandaríkjunum hafa sumar konur ákveðið að sniðganga karlmenn.

Femíníska hreyfingin kallast 4B og á rætur að rekja til Suður-Kóreu. Baráttan gegn feðraveldinu hefur hlotið aukna athygli á samfélagsmiðlum eftir kjör Trumps. Bókstafurinn B stendur fyrir Bi sem þýðir „ekkert“ á kóresku og byggir hreyfingin á fjórum gildum:

  • Bihon: Engin gagnkynhneigð hjónabönd 
  • Bichulsan: Engar barneignir 
  • Biyeibae: Engin stefnumót með karlmönnum
  • Bisekseu: Ekkert kynlíf með karlmönnum

Karlmönnum sé augljóslega sama um konur

Margir hafa verið uggandi eftir kjör Trumps og óttast afturför í réttindabaráttu kvenna. Hafa margar konur deilt myndskeiðum og færslum á samfélagsmiðlum þar sem þær heita því að sniðganga karlmenn, sem þær segja augljóslega vera sama um réttindi þeirra.

Kyn og kynbundin réttindi hafa verið í brennidepli í bandarískum stjórnmálum og var rétturinn til þungunarrofs og aðgengi að kynheilbrigðisþjónustu eitt aðaláherslumála í forsetakosningunum þar. 

Frá mótmælum í Washington árið 2017 á fyrra kjörtímabili Trumps.
Frá mótmælum í Washington árið 2017 á fyrra kjörtímabili Trumps. AFP

Er mörgum konum ofboðið að karlmenn hafi kosið frambjóðanda sem hefur ekki aðeins verið sakaður um kynferðisofbeldi af tugum kvenna heldur stóð einnig á bak við tilnefningar þriggja hæstaréttardómara sem greiddu atkvæði með því að hnekkja stjórnarskrárvörðum rétti kvenna til þungunarrofs.

Lagabreytingin hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilbrigði kvenna í för með sér og því sé óafsakanlegt að kjósa með henni, en til að mynda hefur dánartíðni þungaðra kvenna aukist um 56% í Texas frá því að þungunarrofsbann var samþykkt í ríkinu.

@realityreelclips Lots of women have announced that they are joining the 4B movement, which encourages women to reject traditional roles and relationships with men, due to the results of the US election. #4b #4bmovement #4bmovementusa #news #presidentialelection #womenempowerment #womenssafety #womensupportingwomen ♬ LABOUR - the cacophony - Paris Paloma

„Þinn líkami, mitt val“

Kveðast margar konur vonsviknar yfir því að karlmenn kjósi gegn líkamlegu sjálfræði þeirra. Hafa sumar konur sagt Bandaríkin í dag minna á sögusvið skáldsögu Margaret Atwood, Sögu þernunnar, hið kristilega bókstafstrúarríki Gíleað þar sem karlmenn ráða ríkjum og konur eru annars flokks borgarar.

Þær hyggist því ekki verðlauna hegðun og ákvarðanir karlmanna sem gangi þvert á réttindi þeirra og sýni að þeir skeyti engu um öryggi þeirra, heilbrigði og sjálfsákvörðunarrétt.

Hafa sumir stuðningsmenn Trumps deilt ýmsum hatursskilaboðum til kvenna í kjölfar kosninganna sem konur sem aðhyllast 4B hreyfinguna hafa vísað í, en sem dæmi birti áhrifavaldurinn Nick Fuentes tístið „Þinn líkami, mitt val“ eftir að Trump sigraði kosningarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert