Um 130 þúsund manns mótmæltu í Valencia á Spáni í dag og kölluðu eftir afsögn Carlos Mazón, hæstráðanda í Valencia.
Minnst 220 létust í Valencia-héraði vegna hamfaraflóða í síðustu viku. Byggingar skemmdust, bifreiðar sópuðust í burtu, heilu akrarnir fóru á kaf, samgönguinnviðir urðu fyrir miklu tjóni sem og raforkukerfi.
Yfirvöld hafa sætt gagnrýni vegna ófullnægjandi viðvörunarkerfa fyrir flóðin. Þá hafa íbúar verið ósáttir við hæg viðbrögð yfirvalda í kjölfar þeirra.