Vísað frá bryggju vegna meintra vopna

Gámaskipi frá Mærsk hefur verið meinaður aðgangur að spænsku höfninni …
Gámaskipi frá Mærsk hefur verið meinaður aðgangur að spænsku höfninni í Algeciras. AFP

Gámaskipi frá Mærsk hefur verið meinaður aðgangur að spænsku höfninni í Algeciras, þar sem hafnarstarfsfólk taldi skipið vera að flytja vopn til Ísraels. Skipafélagið hafnar því.

„Farmurinn sem verið er að flytja í gegnum höfnina inniheldur engin hervopn né skotfæri,“ segir í tilkynningu frá Mærsk.

Allur hernaðarfarmur til Ísrael bannaður

Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa rætt við spænsk yfirvöld til að koma í veg fyrir að atvikið endurtaki sig í framtíðinni.

Hafa þeir einnig leitað svara um hvers vegna skipinu hafi verið vísað á brott þegar fjöldi skipa hafi siglt í gegnum Spán með nákvæmlega eins farm án vandræða.

„Það er okkar skilningur að Spánn hafi að eigin geðþótta breytt reglum sínum og hafni nú skipum sem flytja allan hernaðartengdan farm til eða frá Ísrael, jafnvel þó að slíkur farmur sé löglegur,“ sagði í tilkynningu Mærsk.

Spánn gengið hvað lengst

Spænska dagblaðið El Pais hafði eftir spænskum embættismanni fyrr í vikunni að tveimur skipum frá Mærsk, sem ættu leið í gegnum Spán, myndi ekki vera heimilað að leggja þar að bryggju vegna þess að farmur þeirra innihéldi vopnasendingu til Ísrael.

Spánn er það Evrópuríki sem hefur gengið hvað lengst í afstöðu sinni gegn framgöngu Ísraelsmanna á Gasasvæðinu og hafa yfirvöld þar í landi beitt sér fyrir því að sannfæra fleiri Evrópuríki um að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki.

Hafa Spánverjar einnig gefið út að þeir vilji hafa aðild að máli Suður-Afríku á hendur Ísraels þar sem Ísraelsríki er sakað um að brjóta gegn sáttmála Sameinuðu þjóðanna um þjóðarmorð fyrir Alþjóðadómstólnum (ICJ).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert