Trump sagður hafa rætt við Pútín

Trump er sagður hafa rætt við Pútín að morgni 6. …
Trump er sagður hafa rætt við Pútín að morgni 6. nóvember. AFP

Fram kemur í frétt í Washington Post að Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, hafi rætt við Vladimir Putin Rússlandsforseta skömmu eftir að sigur hans í forsetakosningunum var staðfestur.

Er hann sagður hafa varað Pútín við frekari stigmögnun átaka í Úkraínu og minnt um leið á talsverðan herafla Bandaríkjamanna í Evrópu.

Fréttin hefur ekki verið ekki verið staðfest af öðrum miðlum. Sigur Trump var staðfestur snemma að morgni dags þann 6. nóvember og segir í fréttinni að líkur séu á því að Trump hafi haft það sem eitt af sínum fyrstu verkum að ræða við Rússlandsforsetann.

Steven Cheung, samskiptastjóri framboðs Trumps, vildi ekki staðfesta að samskiptin hefðu átt sér stað en hafnaði því ekki. Sagði hann einungis að ekki stæði til að segja frá einkasamtölum Trumps við aðra heimsleiðtoga.

Trump sagði ítrekað í kosningabaráttu sinni að hann gæti endað Úkraínustríðið innan dags. Hann sagði þó aldrei frá því hvernig hann hygðist gera það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert