Donald Trump sigraði að öllum líkindum í Arizona–ríki, og þar með í öllum sveifluríkjunum sjö í forsetakosningunum.
Þessu spáðu bandarísku sjónvarpsstöðvarnar CNN og NBC í nótt er um 90% atkvæða hafa verið talin. Trump fær ellefu kjörmenn og tryggir sér því 312 kjörmenn.
Joe Biden Bandaríkjaforseti vann nauman sigur í Arizona í kosningunum árið 2020.
Hin sveifluríkin sem Trump hefur þegar sigrað í eru Pennsylvanía, Wisconsin, Michigan, Norður-Karólína, Nevada og Georgía.
Repúblikanaflokkurinn er þegar kominn með meirihluta í öldungadeild bandaríska þingsins, en enn á þó eftir að klára atkvæðatalningu um þingsæti í fulltrúadeild þingsins.
Trump mun funda með Biden í Hvíta húsinu á miðvikudag. Slíkur fundur er hefðbundinn, en Trump bauð Biden ekki upp á slíkan fund árið 2020.
Þá var Trump ekki viðstaddur embættistöku Bidens líkt og hefð er fyrir.
Hvíta húsið hefur þegar gefið út að fyrrverandi forsetar demókrata verða viðstaddir embættistöku Trumps í janúar.