Trump skipar Homan og Stefanik

Donald Trump og Elise Stefanik.
Donald Trump og Elise Stefanik. AFP

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, greinir frá því á samfélagsmiðli sínum, Truth Social, að Tom Homan muni stýra landamæraeftirlitinu í Bandaríkjunum og þá hefur Elise Stefanik þegið boð Trumps um að vera sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Trump sagði í kosningabaráttunni að hann ætlaði að taka fast á innflytjendamálum og vísa milljónum innflytjanda úr landi.

Homan er fyrrverandi yfirmaður innflytjenda- og tollaeftirlits (ICE) og að sögn Trumps mun hann bera ábyrgð á allri brottvísun ólöglegra innflytjenda.

„Ég hef þekkt Tom í langan tíma og það er enginn betri til að fylgjast með og stjórna landamærum okkar,“ segir Trump á samfélagsmiðli sínum.

Þá segist Trump hafa boðið Elise Stefanik, þingkonu repúblikana, starf sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Forsetinn verðandi staðfesti þetta við bandaríska fjölmiðla í nótt.

Stefanik hefur þegið boð Trumps og segir að henni hafi verið sýndur mikill heiður.

Í samtali mínu við Trump sagði ég honum hversu innilega auðmjúk ég er að samþykkja tilnefningu hans og að ég hlakka til að ávinna mér stuðning samstarfsmanna minna í öldungadeildinni,“ segir Stefanik við New York Post.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert