Rússar gerðu umfangsmiklar dróna- og flugskeytaárásir á Kænugarð snemma í morgun.
Að sögn úkraínskra yfirvalda var þetta fyrsta samstillta loftárásin af þessum toga á höfuðborgina í rúma 70 daga.
Árásin var gerð á sama tíma og bandaríska utanríkisráðuneytið lýsti yfir áhyggjum yfir því að norðurkóreskir hermenn væru byrjaðir að berjast við hlið Rússa á landamærunum á milli Rússlands og Úkraínu.
Úkraínski flugherinn sagðist hafa skotið niður fjögur flugskeyti og 37 dróna sem Rússar skutu á átta héruð í Úkraínu í nótt og í morgun.
„Það er mikilvægt að hersveitir okkar hafi réttu tækin og tólin til að verja landið frá hernaði Rússa,“ sagði Volodimír Selenskí Úkraínuforseti.
Úkraínumenn hafa mánuðum saman beðið vestræna samherja sína um að útvega þeim fleiri loftvarnarkerfi til að bregðast við árásum Rússa á borgir og mikilvæga inniviði.