Leiðtogi Hamas-samtakanna segir samtökin tilbúin fyrir vopnahlé á Gaza ef tillaga er lögð fram og með því skilyrði að það verði virt af Ísraelsmönnum.
Hann hvetur Donald Trump, nýkjörinn forseta Bandaríkjanna, að þrýsta á Ísrael að binda endi á stríðið. AFP-fréttastofan greinir frá.
„Hamas hefur gert sáttamiðlara grein fyrir því að samtökin séu tilbúin að samþykkja tillögu sem felur í sér endanlegt vopnahlé og að herlið verði afturkallað frá Gaza, að flóttafólk fái að snúa aftur, hjálparsamtök fái að koma inn á svæðið, að uppbygging geti hafist og fangaskipti fari fram,“ segir Bassem Naim, leiðtogi samtakanna.
Kröfurnar eru þær sömu og Hamas hefur sett fram í viðræðum um vopnahlé frá upphafi stríðsins.
Í kosningabaráttunni lofaði Trump að koma á friði í Miðausturlöndum en hét því jafnframt að gefa Ísraelsmönnum lausari taum.
Ummæli Naim koma í kjölfar þess að Katar ákvað að láta af hlutverki sínu sem sáttamiðlara í viðræðum Ísraela og Hamas-samtakanna um vopnahlé á Gaza og endurheimt gísla.
Embættismenn í Katar segjst þó viljugir að snúa aftur að samningaborðinu þegar raunverulegur vilji er hjá samninganefndum Ísraels og Hamas til að semja.