Forsvarsmenn rómversku borgarinnar Pompeii hafa ákveðið að setja þak á fjölda gesta sem fá að sækja borgina heim dag hvern.
Um er að ræða tilraun til þess að sporna gegn mannþröng í borginni með tilheyrandi umhverfisáhrifum.
Frá og með deginum í dag mega að mestu 20.000 manns heimsækja borgina, sem er á heimsminjaskrá UNESCO, dag hvern.
Að sumri til verður gestum sem tryggja sér miða gefinn kostur á að heimsækja borgina fyrir hádegi eða eftir hádegi.
„Hugmyndin er ekki að loka Pompeii heldur að efla Pompeii og stýra betur þeim fjölda sem heimsækir borgina,“ sagði Gabriel Zuchtriegel forsvarsmaður borgarinnar.
Á síðasta ári heimsóttu rúmlega 4 milljónir manna borgina fornu. Þar af heimsóttu tæplega 4 milljónir manna borgina á fyrstu 10 mánuðum ársins og 36.000 einn sunnudag þegar ekki þurfti að greiða fyrir aðgang að borginni.
„Við viljum tryggja öllum gestum gæðaupplifun. Þetta má aldrei verða fjöldatúrismi,“ sagði Zuchtriegel.
Þá vonast forsvarsmenn borgarinnar til þess að með því að skipta deginum í tvennt skapist hvati fyrir ferðamenn að kynna sér nærliggjandi slóðir.
Zuchtriegel sagði einnig að verið væri að vinna í því að opna fleiri húsasund og götur í borginni sem hefðu áður verið lokuð.
Að því loknu yrði vonandi hægt að hækka hámarksfjölda gesta.