Átta voru myrtir og 17 særðust í stunguárás í iðnskóla í Austur–Kína í dag. Búið er að handtaka árásarmanninn.
Árásin átti sér stað í Wuxi iðnskólanum í Yixing–borg í Jiangsu–héraði.
Í yfirlýsingu lögreglu sagði að árásarmaðurinn er 21 árs gamall fyrrverandi nemandi skólans. Hann átti að útskrifast í ár en féll á prófum.
„Hann fór aftur í skólann til þess að tjá reiði sína og fremja þessi morð,“ sagði í yfirlýsingu lögreglu. Maðurinn hefur játað verknaðinn.
Stunguárásir eru ekki óalgengar í Kína þar sem strangt eftirlit er með skotvopnum, en svo mannskæðar árásir eru sjaldgæfar.