Undanfarna áratugi hafa mikilvægustu kolanámurnar í Úkraínu verið í Údasjne. Rússar sækja nú að þeim og vilja helst stöðva framleiðslu þar eða koma í veg fyrir að hægt verði að flytja kolin þaðan.
„Á sunnudegi í Údasjne voru fáir á ferli fyrir utan fimm táninga sem voru saman að veipa á aðaltorginu við gamla sovéska stríðsminnisvarðann,“ skrifar breski blaðamaðurinn Tim Judah, sem hefur verið í Úkraínu frá allsherjarinnrás Rússa í febrúar 2022. „Það var ljóst að náman hérna, sem skaffar sindurkol fyrir það sem eftir er af stáliðnaðinum í Úkraínu, var í sigtinu.“
„Fyrir innrásina 2022 framleiddu Úkraínumenn 21 milljón tonna af stáli á ári,“ rekur Judah. „Mestur hluti framleiðslunnar var í tveimur verksmiðjum í Maríupol, sem voru eyðilagðar þegar borgin féll í maí það ár. Í fyrra framleiddu Úkraínumenn 6,2 milljónir tonna, en ef kol hætta að berast frá Údasjne til að knýja þær stálverksmiðjur sem eftir eru gæti framleiðslan dregist saman um helming til viðbótar. Þegar stríðið hófst 2014 og Rússar tóku stærstan hluta Donbass-svæðisins misstu Úkraínumenn 80% af kolanámum sínum. Í október gaf flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna út að 6,75 milljónir úkraínskra flóttamanna hefðu yfirgefið landið. Þá væri talið að fimm milljónir manna byggju undir hernámi Rússa. Um leið halda Rússar áfram að rústa hlutum úkraínsks efnahagslífs og orkukerfi landsins.“
Grein Judah, sem skrifar fyrir The Economist og The New York Review of Books, um ástandið í Úkraínu birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Þar er fjallað um friðarhorfur, klofning meðal Úkraínumanna og áhyggjur af því að friður gæti orðið Úkrínau dýrkeyptur.