Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, skýtur föstum skotum að Olaf Scholz, kanslara Þýskalands, í kjölfar þeirrar stóru árásar sem Rússar gerðu á Úkraínu skömmu eftir að Scholz hafði rætt við Rússlandsforseta símleiðis.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Scholz ræddu saman í síma á föstudag og voru það fyrstu samskipti Pútins við vestrænan leiðtoga í nær tvö ár. Þýskaland átti frumkvæði að símtalinu, í óþökk stjórnvalda í Kænugarði.
Í nótt, tæpum tveimur sólarhringum síðar, létu Rússar sprengjum rigna víða um Úkraínu, þar sem þeir skutu um 120 flugskeytum og 90 drónum í átt að Úkraínu og er árásin sú stærsta frá því í ágúst. Flugskeytin náðu sum alla leið að vesturhéröðum Úkraínu, sem hafa hingað til verið í öruggri fjarlægð frá árásum Rússa.
Pólverjar eru því nú á hæsta viðbúnaðarstigi og vinna að því að smala saman flughernum vegna árásarinnar. Aðgerðastjórn pólska hersins skrifar á samfélagsmiðla að Pólland hafi „virkjað allar mögulegar hersveitir“ og að herinn sé á „hæsta viðbúnaðarstigi“.
„Það stöðvar enginn Pútín með símtali. Árásin í nótt, ein sú stærsta í þessu stríði, hefur sannað að símadiplómasía komi ekki í stað raunverulegs stuðnings alls hins vestræna heims við Úkraínu. Næstu vikur munu ráða úrslitum, ekki aðeins fyrir stríðið sjálft, heldur framtíðina einnig,“ skrifar Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, á samfélagsmiðlinum X.
Washington Post greindi frá því á dögunum að Trump hefði rætt við Vladimir Putin Rússlandsforseta skömmu eftir að sigur hans í forsetakosningunum var staðfestur. Þar mun hann hafa beðið Pútín um að forðast frekari stigmögnun stríðsins, skrifar miðillinn, en talsmenn Rússa þvertaka fyrir samtalið.
Rússar og Úkraínumenn hafa ekki átt í neinum þýðingarmiklum samræðum frá því að stríðið hófst en endurkjör Trumps hefur stefnt framtíð átakanna í óvissu, þar sem Repúblikaninn hefur ítrekað lofað að ná samkomulagi um að binda enda á stríðið.
Pútín hefur sagst aðeins myndu samþykkja vopna hlé ef Úkraínumenn gefa upp þau landsvæði sem Rússar hafa lagt undir sig í innrásinni.
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði í gær að stjórnvöld í Kænugarði vildu fara diplómatískar leiðir til að binda enda á varnarstríð sitt gegn Rússum á næsta ári. Nokkrum tímum síðar hófst árás Rússa.
„Að okkar leyti verðum við að gera allt sem við getum til að sjá til þess að þessu stríði ljúki á næsta ári. Við verðum að ljúka því á diplómatískan hátt,“ sagði Selenskí við ríkisútvarp Úkraínu í gær.
„Við verðum að skilja það sem Rússarnir vilja,“ bætti Selenskí við.
Loftvarnakerfi Úkraínumanna skaut niður 140 flugskeyti og dróna en Rússar hæfðu þó skotmörk í Kænugarði, Dnipropetrovsk, Donétsk, Lvív og Odesa, samkvæmt BBC. Orkuinnviðir eru skaddaðir eftir árásirnar og rafmagnslaust er á nokkrum svæðum í landinu.
Samkvæmt Kreml ítrekaði Pútín þá kröfur sínar í samtali sínu við Scholz á föstudag að Úkraínumenn yrðu að gefa eftir landsvæði sín. Selenskí hefur áður hafnað slíkum kröfum.