Vélhundur vaktar golfsetur Trumps

Vélræni varðhundurinn mun eflaust seint þykja krúttlegur.
Vélræni varðhundurinn mun eflaust seint þykja krúttlegur. AFP/Joe Raedle

„EKKI KLAPPA,“ stendur stórum stöfum á varðhundi fyrir utan golfsetur Donalds Trumps, fyrrverandi og tilvonandi Bandaríkjaforseta. Hundurinn er þó enginn venjulegur voffi heldur vélmenni á vegum bandarísku leyniþjónustunnar.

Samkvæmt BBC kallast hundurinn Spot og er hannaður af verkfræðifyrirtækinu Boston Dynamics.

Hundurinn er ekki vopnaður en hægt er að fjarstýra hundinum eða láta hann vakta sjálfvirkt svæði sem búið er að forrita í minni hans.

Sniðugur eða ógnvekjandi?

Myndband af Spot ganga á fjórum fótum um eignina hefur farið eins og eldur í sinu á TikTok þar sem viðbrögðin eru misjöfn.

Hefur fólk ýmist lýst nýja varðhundinum sem töff eða sniðugum á meðan aðrir segja hann fremur ógnvekjandi eða telja hann í það minnsta vera efni í brandara hjá kvöldþáttastjórnendum í Bandaríkjunum.

Samskiptastjóri bandarísku leyniþjónustunnar segir verkefni varðhundsins ekkert til að grínast með. Að standa vörð um öryggi tilvonandi forseta sé í algjörum forgangi, en í tvígang var gert banatilræði að Trump í sumar.

Spot að störfum við Mar-a-Lago.
Spot að störfum við Mar-a-Lago. AFP

Kemur ekki í stað lífvarða

Vélhundar eru ekki einungis notaðir af bandarísku leyniþjónustunni heldur eru í stöðugt auknum mæli að bætast í verkfærakistur hersveita og löggæslustofnana um heim allan.

Hundarnir frá Boston Dynamics eru þekktir fyrir lipurð sína og geta gengið upp og niður stiga, komist inn í þröng rými og jafnvel opnað dyr. Vökul augu Spot geta teiknað um þrívíddarkort af umhverfi sínu og greint fjöldann allan af mögulegum ógnum með skynjurum sínum og eftirlitsgreind.

Einn helsti eiginleiki Spot fram yfir raunverulega hunda er að ekki er hægt að trufla hann með hljóðum, leikjum og lyktum.

Aftur á móti þarf ekki meira til en að spreyja hárspreyi í myndavélaraugu Spot til að trufla starfsemi hans. Er honum því ekki ætlað að koma í stað mennskra og vopnaðra lífvarða, heldur aðstoða þá í að vakta svæðið.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af Spot að störfum við Mar-a-Lago golfsetrið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert