Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, segir Bandaríkin og Vesturlönd notfæra sér úkraínska hermenn til að berjast við Rússa og auka hættuna á umfangsmeira stríði, að sögn ríkisfjölmiðils í Norður-Kóreu.
Suður-Kórea og bandarísk stjórnvöld hafa sakað Norður-Kóreumenn um að senda yfir 10 þúsund hermenn til að hjálpa Rússum í bardögum gegn Úkraínumönnum. Sérfræðingar segja að Kim vilji í staðinn ólmur nýta sér háþróaða tækni Rússa, auk þess sem hermenn hans fái mikilvæga reynslu á vígvellinum.
Norðurkóresk stjórnvöld hafa neitað því að hafa útvegað Rússum hermennina og Kim minntist ekkert á það í ræðu sem hann hélt fyrir hershöfðingja.
Hann sagði Bandaríkin og Vesturlönd notfæra sér stríðið í Úkraínu til að „auka hernaðaríhlutun sína á heimsvísu“.
Hann bætti við að þau væru einnig að reyna að „auka við reynslu sína á vígvellinum með því að nota úkraínska hermenn í fremstu víglínu“ gegn Rússum.
„Áframhaldandi hernaðaraðstoð [Vesturlanda] við Úkraínu…vekur upp áhyggjur af þriðju heimsstyrjöldinni,“ sagði hann.
Kim hét því jafnframt að efla kjarnorkuvarnir þjóðar sinnar „án takmarkana“.