Rússneski ballettdansarinn Vladimír Shkljarov, sem lést eftir fall fram af svölum á fimmtu hæð í St. Pétursborg á laugardag, hafði áður gagnrýnt innrásarstríð Rússlands í Úkraínu.
Shkljarov fordæmdi innrás Rússa í Úkraínu í færslu á Instagram í mars árið 2022 og lýsti yfir andstöðu sinni við „öllum hernaðaraðgerðum“.
Hann eyddi færslunni seinna og tjáði sig ekki frekar um framgang stríðsins, að því er segir í umfjöllun Guardian um andlát dansarans.
Margir þeir sem gagnrýnt hafa stjórnvöld í Kreml hafa mætt dauða sínum með því að falla ýmist fram af svölum eða út um glugga, auk annarra sem ekki eru Kremlverjum þóknanlegir þá stundina.
Rússneskir dansarar hafa lofað Shkljarov eftir að fréttir bárust af andláti hans, en dansarinn Irína Baranovskaja kallaði andlát hans „heimskulegt og óbærilegt slys“ á Telegram.
Olga Smírnova, stjörnuballerína Bolsoj-balletsins, flúði Rússland eftir innrásina í Úkraínu og flutti til Hollands á sama tíma og hún gagnrýndi stríðsrekstur heimalands síns.
Shkljarov hélt aftur á móti áfram að koma fram í Rússlandi eftir gagnrýni sína, en sagði ekkert meira opinberlega um innrásina eftir færsluna í mars árið 2022.