Rússnesk stjórnvöld segja fráfarandi ríkisstjórn Joes Bidens Bandaríkjaforseta vilja auka á spennu með því að leyfa Úkraínumönnum að nota langdrægar eldflaugar á rússneskri grundu.
Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlar, sagðist í morgun hafa séð fregnir um að Biden hefði gefið grænt ljós á eldflaugaárásirnar, sem bandarískur embættismaður staðfesti við AFP-fréttastofuna.
Peskov bætti við að það væri „augljóst að fráfarandi ríkisstjórn í Washington ætlar að taka skref til að kynda undir spennunni og valda frekari stigmögnun“.