Volodimír Selenskí Úkraínuforseti segir að það verði skorið úr um það árið 2025 hver vinnur stríðið í Úkraínu.
Þetta kom fram í ræðu hans á úkraínska þinginu í tilefni þess að 1.000 dagar eru liðnir síðan Rússar réðust inn í landið.
Stutt er síðan Bandaríkjamenn gáfu grænt ljós á notkun Úkraínumanna á langdrægum eldflaugum á rússneskri grundu.
„Á mikilvægum augnablikum – og þau eru fram undan á næsta ári – megum við ekki leyfa neinum í heiminum að efast um þrautseigjuna í öllu okkar ríki. Og á þessu stigi málsins, þá er verið að ákveða hver ber sigur úr býtum,“ sagði Selenskí.
„Þessi bardagi snýst ekki um Pokrovsk, Kupiansk eða nokkra aðra borg, bæ eða þorp, ekki heldur um þetta eða hitt héraðið okkar. Þessi bardagi snýst um alla Úkraínu, bardaginn snýst um alla Evrópu, um lög og reglu eða ringulreið fyrir allan heiminn,“ bætti hann við.