„Börn eru að upplifa holskeflu breytinga“

Börn í Bangladess.
Börn í Bangladess. Ljósmynd/Aðsend

Í árlegri skýrslu UNICEF í tilefni Alþjóðadags barna í dag er bent á þrjá meginþætti sem krefjast nauðsynlegra aðgerða til að verja líf, velferð og réttindi barna til ársins 2050.

Þessir þrír þættir eru aldurssamsetning samfélaga, loftslagsbreytingar og náttúruhamfarir og tækniframfarir. 

Fram kemur í skýrslunni að framtíð barnæskunnar sjálfrar hangi á bláþræði ef ekki verði gripið tafarlaust til nauðsynlegra aðgerða til að verja réttindi barna í breyttum fjölkrísuheimi, að því er segir í tilkynningu frá UNICEF á Íslandi.

Þörf á aðgerðum

„Börn eru að upplifa holskeflu breytinga, allt frá loftslagsáföllum til ógna á netinu, og ljóst er að þær munu aðeins aukast á komandi árum,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, í tilkynningu.

„Spár í skýrslunni sýna hvernig þær ákvarðanir sem þjóðarleiðtogar taka í dag – eða taka ekki – munu skilgreina heiminn sem börn munu erfa. Það þarf meira en bara ímyndunarafl til að skapa betri framtíð árið 2050, það þarf aðgerðir. Áratuga framfarir, einkum fyrir stúlkur, eru í mikilli hættu,” bætir hún við.

UNICEF að störfum í Líbanon í síðasta mánuði.
UNICEF að störfum í Líbanon í síðasta mánuði. AFP

Hefur áhrif á átta sinnum fleiri börn

Árið 2023 var það hlýjasta í sögunni og fram kemur í skýrslunni að á áratugnum 2050 til 2059 muni loftslags- og umhverfishamfarakrísan breiða úr sér. Átta sinnum fleiri börn muni búa við öfgafullar hitabylgjur, þrefalt fleiri börn búa við hamfaraflóð og tvöfalt fleiri börn við skógarelda í samanburði við fyrsta áratug þessarar aldar. 

Spár gera sömuleiðis ráð fyrir að hlutfall barna af mannfjölda verði hvergi hærra en í Afríku sunnan Sahara og í Suður-Asíu árið 2050. En á sama tíma mun hlutfall eldri íbúa heimsbyggðarinnar hækka og börnum þar með fækka hlutfallslega í öllum heimsálfum.

Heimilislaus albönsk fjölskylda í frönsku borginni Bordeaux fyrr á árinu.
Heimilislaus albönsk fjölskylda í frönsku borginni Bordeaux fyrr á árinu. AFP/Christophe Archambault

Möguleikar og hættur vegna gervigreindar

Í skýrslunni kemur einnig fram að tækninýjungar á borð við gervigreind bjóði upp á möguleika en líka hættur fyrir börn, sem eigi í samskiptum við gervigreind í smáforritum, leikföngum, tölvuleikjum og kennsluforritum. En ójöfnuður verður enn ríkjandi í hinni stafrænu þróun. Árið 2024 voru rúmlega 95% íbúa í hátekjuríkjum tengd netinu í samanburði við aðeins tæplega 26% í lágtekjuríkjum. 

Á meðal þess jákvæða sem kemur fram í skýrslunni er að lífslíkur barna við fæðingu munu áfram halda að aukast. Áframhald verður á auknu aðgengi barna að menntun líkt og verið hefur síðustu hundrað árin, þar sem spár gera ráð fyrir að nærri 96% barna á heimsvísu muni hafa lokið að minnsta kosti grunnnámi á árunum eftir 2050. Samanborið við 80% á fyrsta áratug aldarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka