Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, hefur skipað Lindu McMahon, fyrrverandi yfirmann fjölbragðaglímusambandsins World Wrestling Entertainment, sem næsta menntamálaráðherra Bandaríkjanna en Trump hefur heitið því að leggja ráðuneytið niður.
Trump lýsti McMahon sem „mikilli baráttukonu fyrir réttindum foreldra“ í tilkynningu.
McMahon er ein af þeim sem hafa umsjón með valdaskiptum Trumps þangað til hann snýr aftur í Hvíta húsið í janúar. Teymið sem hún hefur umsjón með hefur það verkefni að ráða í um 4.000 störf sem tengjast nýju ríkisstjórninni.
McMahon er reynslulítil í stjórnmálum en Trump sagði hana hafa verið í stjórn menntamála í ríkinu Connecticut í tvö ár og verið í stjórn háskólans Sacret Heart, sem er einkaskóli kaþólskra.
McMahon yfirgaf glímusambandið árið 2009 og fór í framboð til sætis í bandarísku öldungadeildinni, án árangurs. Hún hefur veitt stórfé í kosningabaráttu Trumps.
Frá árinu 2021 hefur hún verið formaður Miðstöðvar bandaríska verkamannsins hjá stofnuninni America First Policy Institute, sem styður Trump.
Í kosningabaráttu sinni hét Trump því að leggja niður menntamálaráðuneytið þegar hann sneri aftur í Hvíta húsið.
„Ég er alltaf að segja þetta. Ég get ekki beðið eftir því að snúa mér að þessu. Við munum á endanum leggja niður menntamálaráðuneytið,“ sagði Trump í september í ræðu í Wisconsin-ríki.