Norskur ríkisborgari á þrítugsaldri situr í haldi lögreglunnar í Ósló, grunaður um njósnastarfsemi í bandaríska sendiráðinu þar í borg, þar sem hann starfaði sem öryggisvörður. Gæti maðurinn átt yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi verði hann sekur fundinn en hann er grunaður um stórfellda njósnastarfsemi til þess fallna að skaða hagsmuni erlends ríkis.
Handtók lögregla manninn á heimili hans á miðvikudaginn og greinir norska ríkisútvarpið NRK frá því að hann reki öryggisgæslufyrirtæki sem hlotið hafi vottun norsku lögreglunnar til að bjóða öryggisgæslu og lífvörslu. Norska dagblaðið VG skrifar að maðurinn hafi viðurkennt að hafa afhent írönskum og rússneskum aðilum upplýsingar.
Við eftirgrennslan reyndist heimasíða fyrirtækisins horfin af lýðnetinu en fréttamönnum NRK tókst að kalla hana fram með fulltingi stafræna sarpsins Wayback Machine og skrifar ríkisútvarpið í frétt sinni að þar hafi sendiráðum meðal annars verið boðin öryggisþjónusta.
Fyrirtækið á grunaði með austurevrópskum meðeiganda og hefur það, við eftirgrennslan hjá norsku fyrirtækjaskránni Brønnøysundregistrene, ekki haft neinar skráðar tekjur né útgjöld frá stofnun. Sjálfur hefur maðurinn ekki gefið upp hærri árstekjur til sjálfs sín en um 200.000 norskar krónur, jafnvirði um 2,5 milljóna íslenskra króna.
Norska öryggislögreglan PST kýs að svara ekki fyrirspurnum NRK og fleiri norskra fjölmiðla um málið, fyrir utan að ákæruvaldsfulltrúi öryggislögreglunnar, Thomas Blom, staðfestir að maðurinn hafi verið handtekinn á miðvikudaginn og hafi handtakan farið friðsamlega fram. Verjandi mannsins, John Christian Elden lögmaður, sker svör sín einnig við nögl.
„Hann hefur starfað fyrir erlent ríki,“ svarar verjandinn, inntur eftir því hvort skjólstæðingur hans hafi starfað fyrir bandaríska sendiráðið í borgarhlutanum Vestre Aker í vesturhluta Óslóar, skammt frá landamörkunum við nágrannabæinn Bærum í Akershus-fylki.
Lætur Elden þess enn fremur getið að skjólstæðingurinn neiti sök í málinu en hafi engu að síður lýst sig samþykkan tveggja vikna gæsluvarðhaldsúrskurði sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Óslóar daginn eftir handtökuna. Dagbladet segir úrskurðinn til fjögurra vikna.
„Hann var samþykkur gæsluvarðhaldi í ljósi þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir, en við þurfum að ræða það síðar hvort gjörðir hans gangi í berhögg við ákvæði hegninarlaga,“ segir Elden við NRK.