Verkföll hafa verið boðuð í tíu leikskólum til viðbótar. Verkfallsaðgerðir eru ótímabundnar og munu hefjast 10. desember hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kennarasambandi Íslands.
Leikskólarnir sem um ræðir eru Hulduheimar á Akureyri, Höfðaberg í Mosfellsbæ, Lundaból í Garðabæ, Lyngheimar í Reykjavík, Lyngholt í Reyðarfirði, Óskaland í Hveragerði, Rauðhóll í Reykjavík, Stakkaborg í Reykjavík, Teigasel á Akranesi og Leikskóli Snæfellsbæjar.
Atkvæðagreiðsla fór fram dagana 21. til 22. nóvember. Kjörsókn var á bilinu 94 til 100% og var verkfallið samþykkt með nær öllum greiddum atkvæðum.