Rússar eru sagðir hafa útvegað Norður-Kóreu yfir milljón tunnur af olíu síðan í mars á þessu ári.
Þessi tíðindi byggja á gervihnattamyndum frá samtökunum Open Source Centre sem eru óhagnaðardrifin og starfa í Bretlandi.
Að sögn sérfræðinga og Davids Lammy, utanríkisráðherra Bretlands, er olían notuð sem greiðsla fyrir vopnin og hermennina sem Norður-Kóreumenn hafa sent til Rússlands vegna stríðsins í Úkraínu, að því er BBC greinir frá.
Þessi viðskipti eru brot gegn refsiaðgerðum Sameinuðu þjóðanna, sem banna löndum að selja olíu til Norður-Kóreu, nema í litlu magni. Með því er reynt að hafa hemil á efnahag landsins til að koma í veg fyrir að það haldi áfram þróun kjarnorkuvopna.
Í gervihnattamyndunum, sem var eingöngu deilt með BBC, sjást á annan tug norðurkóreskra olíuflutningaskipa leggjast að bryggju í austurhluta Rússlands samtals 43 sinnum síðustu átta mánuðina.
Fleiri myndir sem voru teknar af skipunum á hafi úti virðast sýna skipin leggjast að bryggju næstum tóm en fara þaðan næstum full.
Rússneska utanríkisráðuneytið svaraði ekki fyrirspurn BBC um viðbrögð við fregnunum.