Tillaga Donald Trumps og JD Vance, forseta og varaforseta Bandaríkjanna, um hvernig megi binda enda á Úkraínustríðið er ekki „algalin“ að mati Vals Gunnarssonar, sagnfræðings og sérfræðings í Úkraínustríðinu.
Valur er gestur Dagmála í þætti dagsins.
„Sumt af því sem hann og Vance eru að segja er ekki algalið. Þeir vilja segja við Rússa að annaðhvort stoppið þið eða að Úkraínumenn fái allan mögulegan stuðning. Sömuleiðis að segja við Úkraínumenn að þeir verði að sætta sig við tapað landsvæði, annars fá þeir engan stuðning. Þannig eru menn þvingaðir til að semja vopnahlé,“ segir Valur.
„Einnig þarf að tryggja öryggi Úkraínu. Sú leið að ganga í NATO er ekki raunhæf sem stendur, en sú hugmynd að hafa friðargæsluliða frá Bandaríkjunum á víglínunni myndi í „praxís“ gera svipað. Þannig að ef Rússar færu aftur af stað þá myndu þeir ráðast á Bandaríkjamenn. Það má segja að þetta sé bjartasta sviðsmyndin, að það takist að semja um vopnahlé með eins konar Kóreulausn. Þar var samið um vopnahlé eftir að hvorki gekk né rak að færa víglínuna í þrjú ár. Það var enginn sérstaklega ánægður með þá niðurstöðu en hún hefur haldið,“ segir Valur.