Lagt til að fátækari þjóðum verði hjálpað

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, COP29, fer nú fram í Bakú.
Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, COP29, fer nú fram í Bakú. AFP

Lagt er til að auðugir losunaraðilar sem hafa verið á bak við losun gróðurhúsalofttegunda í gegnum tíðina skuldbindi sig í að hjálpa fátækari þjóðum að takast á við hlýnun jarðar með því að leggja fram að minnsta kosti 300 milljarða Bandaríkjadala á ári fyrir árið 2035.

Þetta segir í lokadrögum samnings sem hefur verið lagður fram á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP29, sem nú fer fram í Bakú.

Framlög þróunarríkja valfrjáls

Drög að samningnum höfðu birst áður og var þá upphæðin 250 milljarðar bandaríkjadala en nú hefur samningurinn verið uppfærður og orðunum „að minnsta kosti“ bætt við.

Þá er ákvæði í samningnum að framlög þróunarríkja, eins og Kína, séu valfrjáls.

Gengið út í dag

Þess ber að geta að samningamenn smárra eyja og fátækra ríkja gengu út af framlengdum samningafundi í dag þar sem því var haldið fram að hagsmunir þeirra um fjármál væru hunsaðir.

Við vorum að ganga út. Við komum hingað á ráðstefnuna fyrir sanngjarnan samning. Okkur líður eins og það hafi ekki verið hlustað á okkur, sagði Cedric Schuster, sem er frá Samóa-eyjum og er stjórnarformaður bandalags smárra eyríkja, en ríkjunum stafar mikil ógn af hækkandi sjávarmáli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert