Munu elta skipið ef það siglir af stað

Kínverska flutningaskipið Yi Peng 3 hefur legið við akkeri á …
Kínverska flutningaskipið Yi Peng 3 hefur legið við akkeri á miðju Jótlandshafi síðan á þriðjudag. AFP

Sænska strandgæslan aðstoðar nú Dani við að fylgjast með kínverska flutningaskipinu Yi Peng 3, sem grunað er um að hafa rofið sæstrengina tvo í Eystrasalti. Flutningaskipið hefur legið við akkeri á miðju Jótlandshafi síðan á þriðjudag og mun gæslan elta skipið, sigli það af stað. 

Sæstrengirnir rofnuðu báðir í Eystrasalti með minna en tveggja sólarhringa millibili, annars vegar á milli Finnlands og Þýskalands og hins vegar á milli Litháen og Svíþjóðar, og hefur málið vakið mikla athygli.

Hafa finnsk og sænsk yfirvöld hafið rannsókn á málinu og hefur legið grunur á að skemmdarverkin tengist stríði Rússlands við Úkraínu.

Kína neitar ábyrgð

Samkvæmt upplýsingum sigldi Yi Peng 3 yfir sæstrengina um það leyti sem þeir voru rofnir.

Hefur þó kínverska utanríkisráðuneytið neitað allri ábyrgð og sagst vinna með aðilum málsins, þar á meðal Danmörku, við að viðhalda góðum samskiptum.

Danski sjóherinn hefur verið að fylgjast með kínverska skipinu síðan á miðvikudag og bættist svo sænska strandgæslan við í gær.

Munu elta skipið ef það siglir af stað

Staðfesti samskiptafulltrúi gæslunnar, Linnea Kappel, við fréttaveituna AFP í gær að sænska strandgæslan væri komin á vettvang með eitt sitt stærsta skip, KBV001 Poseidon.

Tjáði hún sig ekki um verkefni hennar en staðfesti þó að gæslan væri að aðstoða sænsk yfirvöld og ef Yi Peng 3 myndi sigla aftur af stað myndi sænska strandgæslan fylgja á eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert