Nokkrir óþekktir drónar sáust við þrjá herflugvelli í Bretlandi.
BBC hefur þetta eftir bandaríska flughernum (USAF).
Drónarnir sáust frá miðvikudegi til föstudags yfir flugvöllunum í Lakenheath og Midenhall í Suffolk–sýslu og Feltwell flugvelli í Norfolk–sýslu.
Í tilkynningu USAF sagði að um hefði verið „lítil mannlaus flygildi“ að ræða.
Bandaríski flugherinn hefur afnot af flugvöllunum. Í yfirlýsingu hans sagði að enn sem komið er sé óljóst hvort drónarnir hafi verið óvinveittir.
Þá neitaði USAF að upplýsa hvort aðgerðum hafi verið beitt gegn drónunum, en sagði að rétti hersins til að vernda mannvirki sín hafi verið beitt.
Óljóst er um hversu marga dróna var að ræða og stærð þeirra.
„Við munum halda áfram að fylgjast með loftrýminu okkar,“ sagði talsmaður hersins.
Talsmaður breska varnarmálaráðuneytisins sagði að hótanir væru teknar alvarlega en að ráðuneytið myndi ekki tjá sig frekar um málið.